Íslenski boltinn

Helgi jafnaði met Tómasar Inga

Elvar Geir Magnússon skrifar
Helgi Sigurðsson.
Helgi Sigurðsson.

Valsmaðurinn Helgi Sigurðsson varð annar leikmaðurinn til að setja þrennu fyrir þrjú lið í efstu deild í knattspyrnu þegar hann skoraði þrjú mörk fyrir Val í Grindavík í gær.

Valur vann leikinn 5-3 en Helgi hefur áður skorað þrjú mörk í leik fyrir Víking og Fram.

Tómas Ingi Tómasson var fyrstur til að setja þrennu fyrir þrjú lið í efstu deild. Hann skoraði fyrst þrjú mörk fyrir KR í 5-0 sigri gegn Breiðabliki 1994, þá fjögur mörk fyrir Grindavík í 6-3 sigri gegn Breiðabliki 1995 og síðan skoraði hann þrjú mörk fyrir Þrótt R. í leik gegn Keflavík 1998 sem endaði 5-1. Það tók Tómas Inga aðeins fimm keppnistímabil að afreka þetta.

Það tók aftur á móti Helga, sem lék um tíma í Þýskalandi, Noregi, Grikklandi og Danmörku, sautján keppnistímabil að setja þrennu fyrir þrjú lið. Hann skoraði þrjú mörk fyrir Víking í leik gegn ÍBV 1992, 6-1, þrjú mörk í leik með Fram gegn Fylki 1993, 5-0, og síðan skoraði hann mörkin þrjú gegn Grindavík á sunnudaginn.

Þess má geta að Helgi er annar leikmaður Vals til að setja þrennu í sumar. Pálmi Rafn Pálmason skoraði einnig þrjú mörk í leik gegn Grindavík 14. maí, þegar Valsmenn unnu Grindvíkinga í fyrri umferðinni 3-0.

Aðeins einu sinni áður hafa tveir leikmenn Vals náð því að setja þrennur í efstu deild á sama keppnistímabili. Atli Eðvaldsson og Ingi Björn Albertsson afrekuðu það fyrir 21 ári, 1977. Þá skoraði Atli þrjú mörk í sigurleik gegn Þór, 4-2, og Ingi Björn í jafnteflisleik gegn Fram, 3-3.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×