Íslenski boltinn

Keflavík gerði jafntefli gegn Fylki

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk í kvöld.

Fylkir gerði 3-3 jafntefli við Keflavík í hörkuleik í Árbænum í kvöld. Keflvíkingar komust í 3-1 en Fylkismenn jöfnuðu á 86. mínútu leiksins. FH-ingar hafa því eins stigs forystu á toppi deildarinnar.

Guðmundur Steinarsson kom Keflavík yfir eftir aðeins 24 sekúndur en það var Hörður Sveinsson sem skallaði boltann fyrir Guðmund. Fylkismenn jöfnuðu á 35. mínútu þegar Allan Dyring og Ian Jeffs tóku fallegt þríhyrningsspil og Jeffs hamraði boltann niðri í vinstra hornið.

Keflavík endurheimti forystuna fyrir hálfleik. Guðmundur Steinarsson skoraði sitt annað mark þegar hann skallaði laglega í vinstra markhornið neðst eftir góða sendingu Hólmar Arnar Rúnarssonar af hægri kantinum.

Hörður Sveinsson kom Keflavík í 3-1 eftir varnarmistök. Vendipunktur leiksins var síðan á 73. mínútu.Brynjar Guðmundsson hjá Keflavík fékk að líta rautt spjald fyrir að brjóta á Allan Dyring rétt utan vítateigs. Kjartan Ágúst Breiðdal tók aukaspyrnuna og skaut í gegnum varnarvegg Keflvíkinga og í markið, 2-3.

Á 86. mínútu kom síðan jöfnunarmarkið. Kjartan Ágúst Breiðdal skoraði eftir klafs í teignum og lokatölurnar 3-3. Fylkismenn sýndu mikla seiglu með að ná að vinna sig inn í leikinn. Keflvíkingar duttu til baka og reyndu að verjast, sérstaklega eftir að hafa misst mann útaf en Fylkismenn náðu í dýrmætt stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×