Innlent

Miðja Íslands merkt í dag

Um áttatíu manna hópur á um þrjátíu jeppum á vegum Ferðaklúbbsins 4x4 er nú á leið upp á hálendið til að merkja miðju Íslands.

Alþingismennirnir Siv Friðleifsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir eru meðal ferðalanganna en hópurinn gisti í Kerlingarfjöllum í nótt.

Þaðan var haldið klukkan hálftíu í morgun og stefnt að því að aka um Kjalveg og norður fyrir Hofsjökul og áætlaði einn leiðangursmanna nú fyrir hádegi að miðpunktinum yrði náð um fjögurleytið.

Landmælingar hafa í samráði við klúbbinn reiknað út að miðja Íslands sé rétt norðan Hofsjökuls, í um 800 metra hæð yfir sjó. Þar er búið að setja upp stóran stuðlabergsstein, sem undanfarar reistu upp í gær, og verður hann vígður síðdegis.

Ferðahópurinn áformar svo að aka annaðhvort suður Sprengisand eða fara norðurleiðina en nær vart aftur til byggða fyrr en seint í kvöld eða í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×