Íslenski boltinn

Magnús Gylfason í launadeilu við KR

Andri Ólafsson skrifar
Magnús Gylfason
Magnús Gylfason

Knattspyrnuþjálfarinn Magnús Gylfason stendur í launadeilu við KR. Magnús, sem er álitsgjafi Stöðvar 2 Sport í Landsbankadeildinni, var leystur undan störfum hjá KR um mitt ár 2005 og telur að KR hafi ekki staðið við gefin loforð varðandi starfslok.

Lögfræðingar á vegum Magnúsar Gylfasonar hafa sent stjórn knattspyrnudeildar KR bréf þar sem þess er krafist að staðið verði við meint munnlegt loforð um með hvaða hætti staðið yrði að starfslokum hans hjá KR.

Magnús skrifaði undir þriggja ára samning við KR í september 2004 en honum var sagt upp sumarið eftir.

Stjórnin og Magnús greinir á um hvort rétt hafi verið staðið að starfslokunum.

Magnús telur að hann hafi fengið munnlegt loforð um að fá lengri uppsagnarfrest en gert var ráð fyrir í ráðningarsamningi hans.

Þessu hafnar stjórn KR og telur sig hafa gert upp við Magnús að fullu.

Á sama tíma og Magnús á í þessari óútkljáðu launadeilu við KR sinnir hann starfi álitsgjafa um íslenska knattspyrnu á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 sport.

Í samtali við Vísi sagðist Magnús ekki telja að það væri óeðlilegt. Hann gæti hlutleysis í umfjöllun sinni um félagið og beri ekki til þess kala.

Stjórnarmaður í KR sem Vísir ræddi við í dag var þessu ekki sammála. Hann segir að í bréfum sem stjórninni hafi borist hafi verið ýjað að því að Magnús hyggist fara með launadeiluna lengra. Jafnvel fyrir dómstóla.

Því sé ekki heppilegt að hann tjái sig um málefni KR í fjölmiðlum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×