Handbolti

Suður-Kórea lagði Evrópumeistarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Danska liðið tekur leikhlé í leiknum.
Danska liðið tekur leikhlé í leiknum. Nordic Photos / AFP

Suður-Kórea gerði sér lítið fyrir og lagði Danmörku í keppni í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking í dag.

Suður-Kórea vann með eins marks mun, 31-30, og skoraði Jung Suyoung sigurmark leiksins á lokasekúndum leiksins.

Jafnræði var með liðunum framan af en staðan í hálfleik var 14-13, Dönum í vil. Danir voru með frumkvæðið fyrri hluta seinni hálfleiks en síðasta korterið var Suður-Kórea með yfirhöndina og naði mest þriggja marka forystu, 27-24.

Danir jöfnuðu þó aftur og áttu möguleikann á að komast yfir þegar hálf mínúta var til leiksloka en þá var staðan 30-30. Mikkel Hansen tók þá skot sem var varið.

Suður-Kóreumenn brunuðu þá í sókn og skoruðu sigurmark leiksins.

Jesper Nöddesbo átti stórleik og skoraði ellefu mörk. Klavs Bruun Jörgensen kom næstur með sjö mörk.

Hjá Suður-Kóreu var hetjan Jung Suyoung markahæstur með níu mörk. Paek Wonchul og Ko Kyungsoo skoruðu sex mörk hver.

Í morgun vann Spánn sigur á Pólverjum í æsispennandi leik, 30-29. Staðan í hálfleik var 17-16, Pólverjum í vil. Spánverjar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins.

Albert Rocas skoraði sjö mörk fyrir Spánverja og Krzysztof Lijewski og Mariusz Jurasik fjögur mörk hver fyrir Pólland.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×