Fótbolti

Brasilía marði Belgíu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Brasilíumenn fagna eina markinu.
Brasilíumenn fagna eina markinu.

Í morgun fór boltinn að rúlla í fótboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking.

Beðið var með eftirvæntingu eftir leik Brasilíu og Belgíu enda Brasilíumenn með marga þekkta leikmenn í sínu liði.

En óhætt er að segja að brasilíska liðið hafi ollið gríðarlegum vonbrigðum í þessum leik og lítið var um sambatakta. Liðið náði þó sigri 1-0 en eina mark leiksins skoraði Hernanes, leikmaður Sao Paulo, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Dómari leiksins var Brasilíumönnum hjálpsamur en hann sá til þess að Belgar voru einum leikmanni færri þegar Brasilíumenn komust yfir. Hann hafði gefið belgískum leikmanni annað gult spjald fyrir litlar sakir. Annar leikmaður Belgíu fauk síðan af velli fljótlega eftir markið en sá dómur var glórulaus.

Fleiri leikir voru í morgun. Ítalía vann Hondúras örugglega 3-0 þar sem tvö af mörkunum komu úr vítaspyrnum. Bandaríkin vann Japan 1-0 og þá gerðu Ástralía og Serbía jafntefli 1-1.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×