Mjög viðkvæm staða er í borgarmálunum þessa dagana og sjálfstæðismenn eiga í óformlegum viðræðum við Framsóknarflokkinn um meirihlutasamstarf. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag og hefur eftir heimildarmönnum. Blaðið hefur einnig heimildir fyrir því að sjálfstæðismenn hyggist funda um meirihlutasamstarfið við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra í dag.
Fram kom í fréttum Sjónvarps í gær að Sjálfstæðisflokkurinn vilji að Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, komi inn í núverandi meirihlutasamstarf með F-listanum. Vísir hefur heimildir fyrir því að fundað hafi verið um málið í gær og tók borgarstjóri fálega í þær hugmyndir sjálfstæðismanna. Þá er talið að framsóknarmönnum hugnist ekki sú leið heldur.
Mikill styr hefur staðið um meirihlutasamstarf D-listans og F-listans í borgarstjórnartíð Ólafs F. Magnússonar og vilja sjálfstæðismenn leita leiða til að rétta úr kútnum.
