Íslenski boltinn

Áhugi Valsmanna var kveikjan að brottför Bjarna

Bjarni Guðjónsson sagði ástæðu þess að hann skipti yfir í KR frá ÍA í gær hafa verið þá að "ákveðin atburðarás hafi farið af stað án hans vilja." Gísli Gíslason, formaður meistaraflokksráðs ÍA hefur aðra sögu að segja.

"Það var vilji fyrir því hér á Skaganum að halda Bjarna, en hann var ekki á sama máli. Það var því ákveðið að skoða aðra möguleika. Bjarni vildi fara í KR og því fór sem fór," sagði Gísi. Hann segir atburðarásina hafa farið af stað þegar Valsmenn lýstu yfir áhuga á honum.

"Það kom ákveðið rót á hlutina þegar Valsmenn lýstu yfir áhuga á að fá að ræða við hann. Þegar þetta var rætt við Bjarna leiddi það til þess að hann hafði hug á að færa sig um set. Það er ljóst að það er mikil barátta framundan hjá okkur og við sáum fram á það að við yrðum að hafa alla klára í það verkefni, það mætti ekki bera neinn skugga þar á. Menn verða allir að vera einbeittir í sömu áttina," sagði Gísi í samtali við Vísi.

Hann segir engin tengsl milli uppsagnar Guðjóns Þórðarsonar og félagaskipta Bjarna sonar hans í gær, en því hafði verið fleygt að Skagamenn hefðu selt Bjarna til að gera upp við Guðjón eftir að hann var rekinn.

"Það eru engin tengsl, hvorki persónuleg né fjárhagsleg milli uppsagnar Guðjóns og félagaskipta Bjarna yfir til KR," sagði Gísli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×