Fótbolti

Ólafur: Umræðan um Veigar hafði engin áhrif

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans.
Ólafur Jóhannesson og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans. Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari segir að umræðan um stöðu Veigars Páls Gunnarssonar innan landsliðsins hafi engin áhrif haft á sig.

Norðmenn hafa verið duglegir að flytja fréttir af málinu og margir hafa hneyklast á því að hann var ekki valinn í íslenska landsliðið sem mætti Aserum í síðustu viku.

Veigar Páll leikur með toppliði Stabæk í norsku úrvalsdeildinni og hefur þótt með betri leikmönnum liðsins á tímabilinu.

„Ég les ekki norska fjölmiðla en það hefur einn norskur blaðamaður haft samband við mig. Ég lét þetta ekkert hafa áhrif á mitt val," sagði Ólafur í samtali við Vísi.

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Norðmanna, sagði til að mynda að hann sjálfur hefði valið Veigar Pál í norska landsliðið ef hann væri Norðmaður.

„Það breytir engu fyrir mig. Hann velur bara sitt lið," sagði Ólafur.

Veigar og Eiður geta spilað saman

Hann hefur áður sagt að Eiður Smári Guðjohnsen og Veigar Páll gegni svipuðu hlutverki í sínu liði. Hann útilokar þó ekki að þeir geti spilað saman á vellinum.

„Það gæti vel gerst. Við förum til Noregs til að verjast og verður lögð mest áhersla á það. En svo er aldrei að vita hvernig hlutirnir þróast."

Veigar þekkir vel til norska landsliðsins eins og reyndar fleiri íslenskir landsliðsmenn sem hafa spilað lengi í Noregi.

„Auðvitað eru ákveðin þægindi í því að geta farið út á völlinn og þekkja þá andstæðinginn ágætlega en ég kem bara til með að nota þá leikmenn sem ég tel vera bestir. Ég set getu manna ofar en þekkingu á andstæðingnum."

Menn komi sáttir af vellinum

Ólafur valdi 22 manna hóp fyrir leikina tvo sem eru framundan - gegn Norðmönnum ytra þann sjötta september og gegn Skotlandi á Laugardalsvelli fjórum dögum síðar. Þar sem aðeins er pláss fyrir átján leikmenn á leikskýrslu munu fjórir leikmenn þurfa að sætta sig við stúkusæti.

„Ég geri fyrst og fremst þær væntingar til manna að þeir komi sáttir af velli og að þeir viti að þeir hafi lagt sig allan í leikinn. Ég tel það raunhæft að ná stigi í Noregi. Við munum leggja leikinn þannig upp að við erum með eitt stig í upphafi leiksins og ætlum við okkur að verja það fram í rauðan dauðann. Við munum svo reyna að sækja hin stigin tvö ef einhver möguleiki er á því."

Hann gerir sér þó grein fyrir því að miklar mannabreytingar hafa átt sér stað í landsliðinu undir sinni stjórnartíð.

„Við erum með tvo markmenn sem eru ekki með mikla reynslu, né heldur miðjumennirnir okkar. Það má því segja að það séu ákveðin kaflaskipti í landsliðinu en engu að síður tel ég þá leikmenn sem ég valdi 100 prósent tilbúna í verkefnið."

Hefur áhyggjur af markvarðamálum

Hann sagðist ekki geta neitað því að hann hefur nokkrar áhyggjur af stöðu markvarða hér á landi.

„Við eigum 4-5 fína markverði en þeir eru allir orðnir nokkuð aldraðir," sagði hann í léttum dúr. „Það virðist því vera nokkuð langt bil í næsta markvörð. Við eigum þó ungan og efnilegan markvörð í Fram og tvo unga drengi sem eru í atvinnumennsku. Þetta er því ekki alslæmt."

Árni Gautur Arason lék í marki íslenska landsliðsins í fyrsta leiknum undir stjórn Ólafs, gegn Dönum ytra í lokaumferð undankeppni EM 2008. Í morgun var sagt frá því að hann væri á leið til Odd Grenland og fagnaði Ólafur því.

„Ef það er rétt eru það frábærar fréttir. Hann kæmi tvímælalaust til greina í landsliðið ef hann fengi að spila reglulega aftur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×