Innlent

Ljósabekkir og flugvélar til sölu á heimasíðu Glitnis fjármögnunar

Hljóðfæri, ljósabekkir, myndavélar og jafnvel flugvélar er meðal þess sem auglýst er til sölu á heimasíðu Glitnis fjármögnunar. Með þessu er verið að koma eignum bankans í verð að sögn upplýsingafulltrúa bankans.

Á heimasíðu Glitnis fjármögnunar, undir valmöguleikanum sölutorg, má sjá fjölda fjölbreyttra hluta til sölu. Þar eru níu vöruflokkar, allt frá fólksbílum, jeppum, tjaldvögnum, tölvum, hljóðfærum, ljósabekkjum, myndavélum og jafnvel flugvélum. Þá eru fiskvinnsluvélar og aðrar vinnuvélar einnig auglýstar til sölu bæði notaðar og nýjar.

Már Másson, upplýsingafulltrúi Glitnis, segir að þetta séu eignir sem bankinn hafi ýmist fengið upp í skuldir, vegna samningsloka, breyttra aðstæðna á atvinnustarfsemi og högum fólks. Sölutorgið hafi verið opnað árið 2003. Bankinn sitji uppi með eignir sem hann vilji koma í verð og kjósi að gera það með því að auglýsa þær á heimasíðu sinni.

Már segir bankann vilja hafa allt upp á borðum og þekkt sé að önnur fjármögnunarfyrirtæki hér á landi komi eignum sínum í verð með þessum hætti. Hann segir litla aukningu á vanskilum lána undanfarna mánuði og tilfellum þar sem fólk láti ýmiss konar tæki og tól ganga upp í skuldir hafi ekki fjölgað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×