Fótbolti

Collina fékk senda byssukúlu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Collina á ekki sjö dagana sæla.
Collina á ekki sjö dagana sæla.

Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála á Ítalíu, heldur áfram að fá hótunarbréf. Í umslagi sem sent var á heimili hans á dögunum var byssukúla en málið er litið mjög alvarlegum augum.

Collina fór undir verndarvæng lögreglunnar í desember á síðasta ári vegna fjölda hótunarbréfa sem hann fékk send. Lögreglan vaktaði þá heimili hans um tíma.

Þessi fyrrum besti dómari heims var meðal áhorfenda á leik Sampdoria og Torino um síðustu helgi. Þar varð hann fyrir áreiti frá hópi áhorfenda eftir að Antonio Cassano fékk að líta rauða spjaldið.

Dómaramál hafa mikið verið í umræðunni á Ítalíu í vetur en aldrei hefur jafnmikið af umdeildum atvikum komið upp í deildinni. Fyrr á þessu ári birti ítalskt dagblað leiðrétta stöðutöflu þar sem búið var að fara yfir mistök dómara og töpuð stig sem þeir voru taldir valda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×