Innlent

Guðni hefði átt að finna nýja foringja

Breki Logason skrifar
Steingrímur Hermannsson
Steingrímur Hermannsson

Steingrímur Hermannsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins segist hafa áhyggjur af flokknum. Hann segir það þó ekki hafa komið sér á óvart að Guðni Ágústsson hafi sagt af sér formennsku í Framsóknarflokknum í dag.

„Hann var að vísu búinn að vara mig við og sagðist vera orðinn þreyttur á þessu, svo það kom ekki alveg á óvart," segir Steingrímur sem var á miðstjórnarfundi flokksins á laugardaginn.

„Deilan á laugardaginn snerist um gagnrýni á alla forystu flokksins og sérstaklega á ráðherrana sem voru í ríkissjórn á þessum árum. Það var ekkert sérstaklega deilt á Guðna heldur á forystuna í heild sinni sem tók þátt í þessum hrunadansi."

Steingrímur segist efast um að afsögn Guðna komi í veg fyrir deilurnar sem eru innan flokksins. „Ég held það hefði mátt leiða þetta til lykta á annan máta en var gert. Guðni hefði átt að taka forystu í því að finna nýja foringja," segir Steingrímur.

„Valgerður á margt gott skilið en hún var viðskiptaráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir. Hún er hinsvegar mjög hæf, en ég held að það þurfi að stokka upp allt heila kerfið. Eftir þessa rassskellingu með Iceasave líst mér ekkert á þetta."

Steingrímur segir að samkomulagið varðandi Icesavereikningana sé engin lausn. „Ef eignir Landsbankans duga ekki er verið að skuldbinda þjóðina um áratugi. Allir helstu forystumenn, bæði Seðlabankastjóri og ráðherrar sögðu að það kæmi ekki til greina að borga erlendar skuldir. Síðan eru þeir bara teknir og rassskelltir, ég held það þurfi að stokka þetta upp frá grunni."










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×