Íslenski boltinn

Hún gerist ekki blautari og kaldari tuskan

Logi Ólafsson og hans menn í KR eru klárir í slaginn í kvöld
Logi Ólafsson og hans menn í KR eru klárir í slaginn í kvöld Mynd/Rósa

Bjarni Guðjónsson verður í fyrsta skipti í leikmannahópi KR í kvöld þegar liðið tekur á móti spútnikliði Fjölnis í lokaleik 13. umferðar í Landsbankadeildinni. Leikurinn hefst klukkan 20 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport auk þess sem fylgst verður með gangi mála á Boltavaktinni hér á Vísi.

Logi Ólafsson þjálfari KR segir hans menn eiga harma að hefna gegn Fjölnismönnum, enda töpuðu þeir 2-1 á Fjölnisvellinum í annari umferð Íslandsmótsins þar sem þeir fengu á sig mark úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

"Hún gerist nú ekki mikið kaldari og blautari en sú tuska sem við fengum í andlitið í þeim leik. Við töldum okkur hafa verið betri í umræddum leik og leikurinn í kvöld verður erfiður eins og allir leikir í þessari deild. Við þurfum sannarlega að sýna okkar rétta andlit í kvöld," sagði Logi Ólafsson.

Hann sagði ástandið á leikmönnum sínum "í dýnamísku jafnvægi" og fagnaði því að Gunnlaugur Jónsson væri farinn að æfa á ný. Bjarni Guðjónsson verður í leikmannahópi KR í kvöld, en Logi sagðist ekki vera búinn að ákveða hvort hann fengi sæti í byrjunarliðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×