Íslenski boltinn

Bjarni Guðjónsson: Samningur við KR til 2012

Bjarni Guðjónsson
Bjarni Guðjónsson

Skagamaðurinn Bjarni Guðjónsson skrifaði í kvöld undir fjögurra og hálfs árs samning við KR. Forráðamenn KR staðfestu þetta við Vísi og jafnframt að náðst hefði samkomulag við ÍA um kaupverð. Bjarni sagði við Vísi í kvöld að KR hefði alltaf verið fyrsti kostur.

„KR var alltaf fyrsti kostur hjá mér eftir að ljóst var að ég myndi fara frá Skaganum. Ég bý í vesturbænum og þekkti vel til liðsins," segir Bjarni í samtali við Vísi.

Bjarni fékk einnig tilboð frá Val en hafnaði því. Aðspurður hvort um hann hefði fengið meiri pening ef hann hefði tekið tilboði Vals svarar hann því játandi.

Aðspurður um ástæður þess að hann yfirgefur Skagann segir Bjarni að ákveðin aburðarás hafi farið af stað án hans vilja og eftir það hafi ekki verið aftur snúið. Gengi liðsins komi þar hvergi nærri. „Ég ætla ekki að fara nánar út í það en ástæðan er ekki sú að faðir minn [Guðjón Þórðarson] var rekinn frá ÍA eða að tvíburarnir [Arnar og Bjarni Gunnlaugssynir] tóku við. Ég óska þeim alls hins besta," segir Bjarni.

Baldur Stefánsson hjá KR Sporti var himinlifandi með samninginn við Bjarna þegar Vísir ræddi við hann í kvöld. „Við erum auðvitað himinlifandi með að fá Bjarna til liðs við okkur. Hann er frábær leikmaður sem á eftir að nýtast félaginu vel," segir Baldur.

Aðspurður um kostnaðinn við komu Bjarna segir Baldur að hann sé ekki dýr leikmaður fyrir KR. „Við fundum góða menn sem sjá um að fjármagna þetta. Það var eini möguleikinn til að láta þetta ganga upp."

Bjarni verður ef allt gengur upp löglegur með KR gegn Fjölni á þriðjudagskvöld.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×