Fótbolti

Veigar Páll í landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll í leik með Stabæk.
Veigar Páll í leik með Stabæk. Mynd/Scanpix

Samkvæmt heimasíðu norska úrvalsdeildarliðsins Stabæk voru Veigar Páll Gunnarsson og Pálmi Rafn Pálmason valdir í íslenska landsliðið sem mætir Norðmönnum ytra 6. september næstkomandi.

„Ég er ótrúlega ánægður," er haft eftir Veigari Páli á heimasíðunni. „Ég hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum hefði ég ekki verið valinn. Mitt hlutverk með landsliðinu hefur verið aðeins varnarsinnaðra en með Stabæk en ég hef yfirleitt spilað sem sóknartengiliður eða afturliggjandi framherji."

Veigar Páll var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir leik Íslands og Aserbaídsjan og sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, að hlutverk hans hjá landsliðinu væri líkt því sem Eiður Smári Guðjohnsen gegnir og Eiður hafi verið valinn fram yfir hann þá.

„Það verður mjög sérstakt að mæta norska landsliðinu. Ég þekki norsku leikmennina vel og er vel þekktur hjá norsku stuðningsmönnunum. Ég hlakka mikið til."

Tveir liðsfélagar þeirra í Stabæk, Morten Skjönsberg og Jon Knudsen, voru valdir í norska landsliðshópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×