Íslenski boltinn

Fylkir jafnaði í viðbótartíma

Elvar Geir Magnússon skrifar

Það var líf og fjör í þeim fjórum leikjum sem fram fóru í Landsbankadeild karla í kvöld.

Keflvíkingar minnkuðu forskot FH-inga með sigri á ÍA sem færist nær 1. deildinni, Valsmenn unnu Fjölni í markaleik, HK og Fylkir gerðu jafntefli og sömuleiðis Grindavík og Breiðablik.

Keflavík gerði góða ferð á Akranes og vann 4-1 sigur. Mörk frá Simun Samuelsen og Guðmundi Steinarssyni komu Keflavík í 2-0 forystu áður en Arnar Gunnlaugsson minnkaði muninn. Bjarki Gunnlaugsson stýrði liðinu af bekknum en hann var rekinn upp í stúku áður en tvö mörk frá Patrik Redo innsigluðu sigur Keflavíkinga.

Scott Ramsey og Tomasz Stolpa komu Grindavík í 2-0 gegn Breiðabliki en Marel Jóhann Baldvinsson og Jóhann Berg Guðmundsson svöruðu og tryggðu Blikum stig. Jöfnunarmark Jóhanns í 2-2 kom í blálokin.

HK-ingar virtust vera á leið með að vinna mikilvægan sigur á Fylki þegar Þórir Hannesson jafnaði með síðustu spyrnu leiksins í 1-1. Mitja Brulc hafði komið Kópavogsliðinu yfir með marki úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Valsmenn halda eltingarleiknum við toppliðin áfram en Valur vann nauman 3-2 sigur á Fjölni í Grafarvoginum. Sigurbjörn Hreiðarsson skoraði sigurmarkið í leiknum. Albert Brynjar Ingason og Atli Sveinn Þórarinsson skoruðu hin mörk Vals en mörk Fjölnis gerðu Pétur Georg Markan og Gunnar Már Guðmundsson.

Fylgst var með leikjunum á Boltavaktinni en á heimasíðu hennar má finna stöðuna í deildinni og allar upplýsingar um leikina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×