Golf

Enginn getur ógnað Tiger

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adam Scott.
Adam Scott.
Adam Scott segir að það sé ómögulegt að ætla að jafna eða jafnvel bæta árangur Tiger Woods á golfvellinum.

Johnnie Walker Classic-mótið hefst á Indlandi í nótt en Scott hefur áður fagnað sigri á mótinu. Tiger vann þetta mót tvívegis á sínum tíma en hann er ekki meðal keppenda að þessu sinni.

Fyrrum þjálfari Woods, Butch Harmon, segir að Scott sé fær um að geta veitt Woods verðuga samkeppni í framtíðinni. Scott er 27 ára gamall og fáeinum árum yngri en Woods. Harmon hefur líka þjálfað Scott.

„Ég get ekki séð að einhver geti veitt honum stöðuga samkeppni, viku á eftir viku. Hann er hreinlega í öðrum gæðaflokki."

Woods vann sigur í heimsmeistaramótinu í holukeppni í Arizona um síðustu helgi og ræddi eftir mótið þann möguleika að fara taplaus í gegnum tímabilið. Þetta var sjötti sigur hans í röð.

Scott hefur unnið sex mót á Evrópumótaröðinni í golfi og verður besti kylfingur mótsins í Indlandi samkvæmt styrkleikalista Alþjóða golfsambandsins. Scott vann nú síðast mót í Doha í Katar þar sem hann lék á 61 höggi á lokadeginum.

En aðeins Woods, Nick Faldo og Ernie Els hafa unnið mótið tvisvar á Johnnie Walker Classic-mótinu.

Meðal keppenda á mótinu í Indlandi verða þeir Vijay Singh, Miguel Angel Jimenez, Colin Montgomerie og Anton Haig, sem á titil að verja.

Af heimamönnum þykja þeir Jeev Mikha Singh og Shivshankar Chowrasia sigurstranglegastir. Sá síðarnefndi vann sigur á opna indverska meistaramótinu fyrr í mánuðinum.

Birgir Leifur Hafþórsson er ekki meðal keppenda á mótinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×