Körfubolti

Grindavík vann í sveiflukenndum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það hafa verið hörkuspennandi rimmur milli Grindavíkur og KR í úrslitakeppninni.
Það hafa verið hörkuspennandi rimmur milli Grindavíkur og KR í úrslitakeppninni. Mynd/Valli
Grindavík vann í dag ótrúlegan sigur á KR í mjög sveiflukenndum leik í fjórða leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar kvenna.

Svo fór að Grindavík vann viðureignina, 91-83, þó svo að hafa verið undir þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Ólöf Pálsdóttir skoraði þá afar mikilvæga þriggja stiga körfu og kom Grindavík í forystu í leiknum, 77-75. KR-ingar náðu að jafna, 77-77, en þá komu átta stig frá Grindvíkingum í röð sem dugði til að tryggja sigurinn á endanum.

Grindavík byrjaði betur í leiknum og komst í 19-8 og svo skömmu síðar í 26-13. Þá komu tíu stig í röð frá KR sem náði svo yfirhöndinni í leiknum, 29-28.

Staðan í hálfleik var 46-44, KR í vil, eftir að Grindavík skoraði síðustu fjögur stig hálfleiksins. KR bætti um betur í þriðja leikhluta og var með sjö stiga forystu þegar fjórði leikhluti hófst, 66-59.

Grindavík náði svo að jafna metin þegar fimm mínútur voru til leiksloka, 70-70, og var leikurinn í járnum eftir það allt fram á lokamínútu leiksins.

Tiffany Roberson var stigahæst hjá Grindavík með 35 stig og tólf fráköst. Joanna Skiba kom næst með 27 stig en Ólöf skoraði alls þretán stig í leiknum auk þess sem hún gaf sex stoðsendingar.

Candice Futrell skoraði 27 stig fyrir KR og tók tólf fráköst. Hildur Sigurðardóttir skoraði nítján stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók sjö fráköst. Þá skoraði Sigrún Ámundadóttir sautján stig og tók ellefu fráköst.

Staðan í einvíginnu er því 2-2 eftir að KR hafði komist í 2-0 forystu. Oddaleikurinn fer fram á þriðjudaginn kemur á heimavelli KR og verður allt undir í þeim leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×