Fótbolti

Messi fer á Ólympíuleikana

AFP

Alþjóða Knattspyrnusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að allir leikmenn undir 23 ára aldri skuli fara með landsliðum sínum á Ólympíuleika.

Þetta þýðir að leikmenn á borð við Leo Messi hjá Barcelona mega fara á leikana í Kína, en það hefur mætt mikilli mótstöðu forráðamanna Barcelona. Þeir eru ekki einir um það að vera tregir til að hleypa ungum stórstjörnum sínum á leikana og hafa félög í Þýskalandi m.a. vakið athygli á andstöðu sinni.

Messi segist vilja spila fyrir þjóð sína á Ólympíuleikunum, en verði farið með málið lengra - ætlar hann einfaldlega að snúa aftur í herbúðir Barcelona.

"Ef FIFA segir að ég eigi að fara með landsliðinu á ÓL, þá geri ég það. Ég skil afstöðu félagsliðanna af því við spilum mjög marga leiki, en ég hef alltaf sagt að ég vilji spila fyrir landsliðið mitt," sagði Messi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×