Íslenski boltinn

Valur og Grindavík unnu sína leiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Valur og Grindavík nældu sér í þrjú dýrmæt stig í kvöld en tveir leikir voru á dagskrá Landsbankadeildar karla.

Hægt var að fylgjast með helstu atriðum leikjanna á sömu síðunni - Miðstöð Boltavaktarinnar. Slóðin á hana er visir.is/boltavakt. Þar er hægt að smella á hvern einstakan leik til að lesa nánar með framvindu leikjanna.

Valur vann tveggja marka sigur á Fylki með mörkum Guðmundar Benediktssonar og Alberts Ingasonar. Fyrra markið kom snemma í leiknum og var Fylkir meira með boltann eftir það og náðu að skapa sér fá almennileg færi.

Valsmenn tóku svo völdin í síðari hálfleik en Fylkir fékk reyndar frábært færi til að jafna þegar skammt var til leiksloka. En í staðinn skoraði Albert aðeins tveimur mínútum síðar og gerði þar með út um leikinn.

Grindavík vann 1-0 sigur á Fjölni í Grafarvoginum en síðarnefnda liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Grétar Hjartarson tryggði svo gestunum sigur með marki beint úr aukaspyrnu þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka.

Fjölnismenn sóttu stíft bæði í upphafi og undir lok síðari hálfleiks en allt kom fyrir ekki.

Valsmenn eru nú í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig. Fjölnir er enn í sjöunda sæti með 21 stig og Grindvíkingar enn í því áttunda en nú með 20 stig.

Fylkismenn eru sem fyrr í tíunda sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Þrótti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×