Íslenski boltinn

Mikil endurnýjun í dómgæslunni á Íslandi

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gylfi Orrason er sjálfur hættur dómgæslu en hefur tekið þátt í að leiðbeina nýjum úrvalsdeildardómurum.
Gylfi Orrason er sjálfur hættur dómgæslu en hefur tekið þátt í að leiðbeina nýjum úrvalsdeildardómurum.

Athyglisvert að á þremur af fjórum leikjum kvöldsins í Landsbankadeild karla eru aðaldómarar sem eru á sínu fyrsta ári í deildinni.

Þá er dómarinn á leik Keflavíkur og HK, Þorvaldur Árnason, að fara að dæma sinn fyrsta leik í efstu deild.

Þetta sýnir skýrt þá endurnýjun sem er í gangi í íslenskri dómgæslu. Þóroddur Hjaltalín Jr. mun dæma leik Fram og ÍA og Valgeir Valgeirsson dæmir FH - Þrótt. Báðir eru á fyrsta ári sem A-dómarar en hafa fengið lof fyrir sína frammistöðu.

Þorvaldur er fæddur 1983 og er yngsti dómari Landsbankadeildarinnar. Annar aðstoðardómarana á leiknum í Keflavík í kvöld verður síðan Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, annar efnilegur dómari, en hann er einnig að fara að fara að taka þátt í sínum fyrsta leik í efstu deild.

Allir þessir dómarar eiga það sameiginlegt að þeir hafa verið undir handleiðslu einna reyndustu dómara Íslands sem nú hafa lagt flautuna á hilluna. Gylfi Þór Orrason og Eyjólfur Ólafsson eru með tvo dómara hvor á sínum snærum. Gylfi þá Þórodd og Þorvald. Eyjólfur fylgist með Örvari Sæ Gíslasyni og Vilhjálmi Alvari.

„Mér hefur þótt gaman að taka þátt í þessu, sérstaklega þar sem maður hefur séð framfarir. Strákarnir taka gagnrýninni á réttan hátt og þeir eru að laga það sem ég hef bent þeim á að laga," sagði Gylfi í viðtali við Sport, aukablað Fréttablaðsins. Hann er sannfærður um að þetta verkefni skili sér í betri dómurum.

Dómarar á fyrsta ári sem A-dómarar 2008: Valgeir Valgeirsson, Þóroddur Hjaltalín Jr, Þorvaldur Árnason og Örvar Sær Gíslason.

Dómarar á leikjum kvöldsins:

Keflavík - HK: Þorvaldur Árnason (að fara að dæma sinn fyrsta leik)

Fram - ÍA: Þóroddur Hjaltalín Jr. (á fyrsta ári í efstu deild)

FH - Þróttur: Valgeir Valgeirsson (á fyrsta ári í efstu deild)

Breiðablik - KR: Garðar Örn Hinriksson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×