Fótbolti

Eiður Smári: Þjálfarinn hefur trú á mér

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen

Eiður Smári Guðjohnsen segir í spænskum fjölmiðlum í dag að hann hafi fulla trú á því að hann verði áfram hjá Barcelona eftir að hann ræddi við Pep Guardiola, nýráðinn þjálfara liðsins.

Framtíð Eiðs Smára hefur verið óljós allt frá því að Guardiola var ráðinn enda óvíst hvaða hlutverk nýi þjálfarinn ætlaði honum.

„Ég hafði mínar efasemdir um framtíð mína hjá félaginu en eftir að ég talaði við Guardiola þá breyttist það. Hann sagðist hafa fulla trú á mér og sagði mig geta hjálpað liðinu mikið. Það var gott að heyra því að ég vildi bara vera áfram ef þjálfarinn tryði á mig og ég gæti fært liðinu eitthvað," segir Eiður Smári.

Eiður Smári skrifaði undir fjögurra ára samning við Barcelona sumarið 2006 og á því tvö ár eftir af þeim samningi. Forráðamenn barcelona hafa ekki enn rætt við hann eða ðara leikmenn liðsins sem eiga tvö ár eða minna eftir af samningi sínum en samkvæmt fréttum sem berast þá styttist í það.

„Það er mikið af miðjumönnum hjá félaginu og þeir hafa allir sína styrkleika. Guardiola hefur beðið mig um að koma frá miðjunni og skora mörk. Tímabilið verður langt með um sjötíu leikjum og því þarf liðið alla leikmenn í toppformi," segir Eiður Smári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×