Innlent

Olíuskattar klúðruðu Drekaútboðinu

Einn helsti sérfræðingur Noregs í olíumálum segir að dræm þátttaka í Drekaútboðinu hljóti að vera vonbrigði fyrir íslensk stjórnvöld og telur að fráhrindandi og illskiljanleg skattalöggjöf sé meginástæðan. Hann segir áformað vinnslugjald fáránlega hátt.

Hans Henrik Ramm hefur setið á Stórþinginu og gegnt stöðu aðstoðarolíumálaráðherra en starfar nú sem óháður ráðgjafi og gefur út eigið fréttabréf fyrir olíuiðnaðinn. Þótt iðnaðarráðherra og talsmenn Orkustofnunar hafi talið tvær umsóknir góðan árangur í Drekaútboðinu er Hans Henrik annarrar skoðunar:

„Með hliðsjón af bjartsýnum yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda hlýtur hin dapra útkoma að vera vonbrigði," segir hann en bætir við að fyrirtækin tvö, sem sóttu um, hafi nú gullið tækifæri til að ná forskoti frá upphafi í olíuleitinni. Mikil áhætta og mikil hagnaðarvon valdi því að verkefnið geti ráðið úrslitum um hvort fyrirtæki standa eða falla.

Hann segir íslenska olíuskattkerfið mjög ólíkt því norska og segir það flókið og illskiljanlegt, háir skattar snemma í ferlinu þyki slæm skattastefna, vinnslugjald óháð hagnaði sé fáránlega hátt, það sé mjög skemmandi að girt sé fyrir að unnt sé að yfirfæra tap á milli vinnsluleyfa, og kerfið sé órökrétt og óskynsamlegt, ekki síst fyrir framtíðarhagsmuni Íslendinga.

Hann furðar sig á að á olíuráðstefnu í Reykjavík í fyrrahaust hafi verið kynntar aðrar upplýsingar um skattkerfið en reyndin varð á í lögunum, þar sem skattprósentur voru orðnar mun hærri.

„Þrátt fyrir þetta er íslenska skattkerfið samsett af bæði mjög aðlaðandi þáttum en einnig mjög fráhrindandi þáttum," segir olíusérfræðingurinn, en segir líklegt að kenna megi íslensku olíuskattalöggjöfinni að miklu leyti um hinn litla áhuga sem olíufélög sýndu Drekaútboðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×