Handbolti

Arnór mögulega í speglun á hné

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu í haust.
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu í haust. Mynd/Arnþór
Arnór Atlason verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Eistlandi á sunnudaginn er liðin mætast í undankeppni EM 2010.

Arnór meiddist á læri á æfingu með landsliðinu á mánudaginn en hann er einnig meiddur á hné. Svo gæti farið að hann fari í dag í speglunaraðgerð á hnénu.

„Það gæti verið að ég fari í speglun á hnénu en þetta er bara læknisskoðun," sagði Arnór í samtali við Fréttablaðið í gær. „Ég verð frá í 2-3 vikur vegna meiðslanna á lærinu og því gæti hentað að framkvæma speglunaraðgerðina nú."

Arnór hefur lengi átt í vandræðum með hnéð. „Ég fékk bólgueyðandi sprautu fyrir þremur vikum en samt var það bólgið þegar ég kom hingað vegna landsliðsins. Það þýðir einfaldega að það er eitthvað að."

Hann segir ekkert óeðlilegt hafa komið í ljós í myndatökum á hnénu. Í raun sé þetta keimlíkt þeim vandræðum sem Einar Hólmgeirsson á nú í og lýsti í viðtali við Fréttablaðið sem birtist í gær.

„Ég las þetta viðtal og það hefði þess vegna getað verið tekið við mig. Þetta virðist vera nákvæmlega sama vandamálið og hjá mér."

Arnór leikur með FCK í Danmörku og liðið er nú í öðru sæti deildarinnar og stendur því vel að vígi fyrir úrslitakeppnina sem er framundan. Hann segist þó ekki ætla að fórna sér í leiki í úrslitakeppninni ef hann er ekki heill heilsu.

„Heilsan verður að taka forgang og ég ætla ekki að spila nema að hnéð verði búið að jafna sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×