Innlent

Tryggingastofnun: Bendið okkur á bótasvik

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Frá höfuðstöðvum Tryggingastofnunar.
Frá höfuðstöðvum Tryggingastofnunar. Mynd/GVA

Hægra megin á vefsíðu Tryggingastofnunar hefur verið komið fyrir hnappi sem leiðir að ábendingaformi fyrir meint bótasvik úr almannatryggingakerfinu, að því er kemur fram í tilkynningu.

Hildur Björg Hafstein, kynningarfulltrúi hjá Tryggingastofnun, segir talsvert hafa verið hringt til stofnunarinnar með ábendingar um bótasvik og því hafi verið ákveðið að gera fólki enn auðveldara að tilkynna þau.

Hún segist telja að þó nokkuð sé um slík svik.

„Tölur frá löndunum í kringum okkur sýna að þetta er vaxandi vandamála og það er engin ástæða til að ætla að það sé öðruvísi hér."

Ekki er nauðsynlegt að gefa upp nafn, netfang eða síma tilkynnanda en það getur að sögn Tryggingastofnunar flýtt fyrir afgreiðslu að geta haft samband við hann. Farið er með allar ábendingar sem trúnaðarmál.

Hnappnum var komið fyrir á síðunni seinnipartinn í gær, en Hildur Björg segir engar ábendingar hafa borist á þeim stutta tíma sem hnappurinn hefur verið uppi.

Tryggingastofnun leggur áherslu á að tryggja réttar greiðslur þannig að greiðslur berist þeim sem sannanlega eiga rétt á þeim.

Heimasíðu stofnunarinnar má sjá hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×