Körfubolti

LeBron talaði ekki við neinn eftir tapið í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James hjá Cleveland Cavaliers.
LeBron James hjá Cleveland Cavaliers. Mynd/GettyImages

LeBron James hjá Cleveland Cavaliers var allt annað en sáttur eftir að lið hans féll úr leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt. Orlando Magic fór illa með James og félaga sem allir bjuggust við að færu alla leið í lokaúrslitin. Þar mætast hinsvegar Orlando og Los Angeles.

LeBron James yfirgaf leikvöllinn um leið og klukkan rann út og þakkaði engum fyrir leikinn eða einvígið. Hann hélt sér til hlés út í horni búningsklefans á meðan hann klæddi sig og lokaði sig frá umheiminum með risastórum heyrnatólum.

James var síðan fyrstur út úr klefanum, strunsaði út í rútu sem var á leiðinni út á flugvöll. James kom ekki á blaðamannafundinn eftir leikinn og veitti engum viðtöl eftir leikinn. Pirraður og svekktur var James í sínum eigin heimi og það hefur ýtt undir vangaveltur að hann sé farin að huga að því að yfirgefa Cleveland þegar samningur hans rennur út 2010.

LeBron James skilaði frábærum tölum í einvíginu á móti Orlando en það dugði skammt. Hann var með 38,5 stig, 8,3 fráköst og 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum sex á móti Orlando Magic. James hitti úr 48,7 prósent skota sinna í leikjunum en nýtti þó aðeins 29,7 prósent skota sinna fyri utan þriggja stiga línuna.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×