Lífið

Ræðuárið hefst í kvöld: Kvennó með opna sýnikeppni

Skólalíf skrifar
Jón Bjarki Magnússon er einn þjálfara Kvennóliðsins í ár.
Jón Bjarki Magnússon er einn þjálfara Kvennóliðsins í ár.
Í kvöld fer fram fyrsta opna framhaldsskólaræðukeppni ársins í Kvennaskólanum, en keppnin er haldin að frumkvæði þjálfara ræðuliðs skólans. Þeir hafa valið átta efnilegustu ræðumennina af námskeiði sem haldið var í skólanum til að keppa þessa sýnikeppni áður en valið verður í endanlegt keppnislið Kvennó fyrir MORFÍS.

Sindri Már Hjartarson, gjaldkeri nemendafélagsins Keðjunnar, lofar algjörri gæðaskemmtun á keppninni: „Keppnin í kvöld verður goðsagnakennd enda eru keppendur búnir að leggja á sig mikla vinnu fyrir þessa viðureign. Svo er þetta líka frábær kynning fyrir nýnemana okkar.“

Að hans sögn verða þjálfarar liðsins í ár þeir Guðjón Heiðar Valgarðsson og Björn Rafn Gunnarsson, en þeir unnu saman í fyrra þegar Björn Rafn var sjálfur í liði Kvennó og Guðjón þjálfari hans. Þriðji þjálfarinn er sjálfur Jón Bjarki Magnússon, sem vakti mikla athygli á síðasta ári þegar hann lét af störfum sem blaðamaður DV eftir deilur við ritstjórann Reyni Traustason. Jón Bjarki hefur einnig verið í framvarðasveit mótmælenda í kjölfar bankahrunsins.

Keppnin hefst klukkan 20:00 í Uppsölum við Hellusund. Keppt verður eftir hefðbundnu MORFÍS fyrirkomulagi, en liðin keppa um umræðuefnið Lífið er leikur. Í liði meðmælenda eru þau Baldur, Gísli, Eva og Helgi en lið andmælenda skipa Oddur, Árni, Óli og Grímur.

Í næstu viku mætast svo erkiefjendurnir í MR og Verzló í ræðukeppni á hinum árlega VÍ- MR degi, eins og Verzlingar kalla hann, eða MR-VÍ degi, eins og MR-ingar kalla hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.