Innlent

Mynda mannlegt friðarmerki

Ungverskur friður Um 3.500 manns hittust í Búdapest í fyrra til að mynda þetta friðarmerki. Á föstudag á að endurtaka leikinn, á Klambratúni. Kyndlar verða á staðnum. 
Mynd/heimsganga.is
Ungverskur friður Um 3.500 manns hittust í Búdapest í fyrra til að mynda þetta friðarmerki. Á föstudag á að endurtaka leikinn, á Klambratúni. Kyndlar verða á staðnum. Mynd/heimsganga.is

Til stendur að mynda mannlegt risavaxið friðarmerki á Klambratúni á föstudaginn.

Þann dag, 2. október, er friðardagur Sameinuðu þjóðanna haldinn hátíðlegur um allan heim, en 2. október er einnig fæðingardagur friðarleiðtogans indverska Mahatma Gandhi.

„Við ætlum að lyfta kyndlum á loft og mynda friðar­merki. Þetta er táknræn aðgerð um djúpstæða þrá eftir samfélagi án ofbeldis,“ segir Helga R. Óskarsdóttir húmanisti.

Skipulagshópur Heimsgöngunnar, ásamt Rauða krossinum, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Samtökum hernaðar­andstæðinga, Öryrkjabandalaginu og fleiri fjöldasamtökum, standa að göngunni.

Á degi friðar hefst heimsganga frá Nýja-Sjálandi og á að ganga heiminn þveran og endilangan á þremur mánuðum, eða til 2. janúar, þegar henni lýkur í Andesfjöllum í Argentínu. Göngufólkið fer í gegnum hátt í hundrað lönd og ræðir við stjórnmálamenn og aðra leiðtoga í hverju landi. Helstu kröfur göngufólksins eru að kjarnorkuvopnum verði útrýmt og að innrásarherir hverfi frá herteknum svæðum.

Friðarmerkið á Klambratúni á að mynda klukkan 20 á föstudag, en um morguninn verður mínútuþögn í mörgum grunnskólum landsins.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×