Lífið

Íhuga að halda risafyrirpartí í stað busaballs

Skólalíf skrifar
Úr kennslustofum Hraðbrautar - mynd úr safni.
Úr kennslustofum Hraðbrautar - mynd úr safni.
„Þetta er erfitt fyrir Hraðbraut,“ segir Nadía Lind Atladóttir, formaður nemendafélagsins Autobahn. Hún segir ekkert busaball hafa verið haldið við skólann, því illa gangi að fá aðra skóla í samstarf með þeim.

„Þetta er búið að vera vandamál. Öll hin busaböllin eru á tímum sem henta Hraðbraut illa,“ segir Nadía. Hún segir að yngri helmingur skólans haldi að það verði ekkert busaball, meðan hinn helmingurinn velti því kannski lítið fyrir sér, enda mörg hver komin vel á þrítugsaldur. Nadía segist samt hvergi af baki dottin. Hún leitar enn að samstarfsskóla og er jafnvel farin að hugsa upp nýstárlegar lausnir á vandanum.

„Kannski höldum við bara „fyrirpartí“ í staðinn fyrir ballið og bjóðum öllum skólanum. Það er ekkert mál – við erum svo fá, og gætum þá reynt að fá eldri nemendurna líka með,“ segir Nadía og bendir á að það gæti verið persónulegra en stórt ball.

Eins og margir vita er kennt í lotum í Hraðbraut, og segir Nadía að fyrsta lotan hafi verið erfið fyrir félagslífið, enda rosalega mikið að gera hjá öllum í skólanum. Engu að síður hafi allt farið vel af stað; Autobahn hefur nú þegar staðið fyrir pókermóti, haldið æðislega busun og keppt í paintball.

„Svo verður opið hús á næstunni. Það finnst öllum mjög skemmtilegt. Þá nýtum við skólann svo það er allt að ske í öllum stofum, við bjóðum upp á pizzu og fleira,“ segir Nadía hress að lokum, þrátt fyrir að hafa setið við próflestur þegar Skólalíf náði af henni tali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.