Innlent

Algjörlega gjörsamlega óskiljanlegt

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson

Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði það algjörlega gjörsamlega óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin þráast við. Þessi orð lét Illugi falla í umræðum um fundarstjórn forseta sem nú fer fram á Alþingi. Hart er tekist á og vilja sjálfstæðismenn fresta umræðum um stjórnarskrá og afgreiða mál er snerta fyrirtæki og heimili í landinu eins og þeir orða það.

Illugi lagði til að hlé yrði gert á þingstörfum og forseti ræddi við formenn þingflokkana. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn vilja afgreiða mál sem skipti máli og nefndi þar frumvarp um samninga um álver í Helguvík. Hann sagði það aðkallandi fyrir þjóðina en síðar í dag mætti þá ræða stjórnarskránna á ný.

Jón Gunnarsson samflokksmaður Illuga var einnig harðorður í garð ríkisstjórnarinnar. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn ætla að standa vaktina í nafni lands og þjóðar og verja stjórnarskránna. Flokkurinn myndi ekki gefast upp og hvatti Framsókn og Frjálslynda til þess að standa með flokknum.

Hann sagði mikilvægast að mál kæmust á dagskrá sem snúa að fyrirtækjum og heimilum í landinu. Það væri loforð sem minnihlutastjórnin hefði gefið þjóðinni þegar hún tók við.

Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis sagðist ætla að nýta tímanna í hádegishléi til þess að ræða við formenn þingflokkanna um breytingar á dagskrá Alþingis.

Nú er hafin umræða um stjórnarskránna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×