Viðskipti erlent

Novator gerir kröfu um breytingar á stjórn Amer Sports

Novator, í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar, hefur gert kröfu um að breytingar verði gerðar á stjórn íþróttaverslunnarkeðjunnar Amer Sports í Finnlandi. Hefur Novator farið fram á aukahluthafafund af þessum sökum.

Á almennum hluthafafundi Amer Sports sem haldinn var í gærdag var ákveðið, að tillögu stjórnar félagsins, að greiða arð til hluthafa fyrir síðasta ár og efna til hlutafjáraukningar.

Novator er ósátt við þessa niðurstöðu og vill að Amer Sports selji eignir til að létta á skuldastöðu sinni.

Novator er stærsti hluthafi Amer Sports með 20,1% af hlutaféinu. Novator vill ennfremur breyta hlutafjárreglum Amer Sports þannig að hver af fimm stærstu hluthöfum félagsins eigi sæti í stjórn þess.

Heiðar Guðjónsson forstjóri Novator segir í samtali við Reuters að að þeir vilji ekki búta Amer Sports niður. "Við viljum aðeins að stjórn félagsins skoði allar leiðir sem geti sem best þjónað hagsmunum félagsins," segir Heiðar.

Novator vill að aukahluthafafundur verði haldinn eins fljótt og auðið er.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×