Viðskipti erlent

Barbie flýr fjármálakreppuna og flytur til Sjanghæ

Barbie dúkkan er búin að pakka saman dóti sínu í bleiku ferðatöskurnar og er flutt til Sjanghæ í Kína. Fjármálakreppan er sögð ástæða flutningsins frá Bandaríkjunum.

Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni segir að Mattel, framleiðandi Barbie dúkkunnar, hafi ákveðið að opna fyrstu sérhæfðu verslunina sem eingöngu verslar með Barbie-dúkkur og leikföng og föt tengd henni í Sjanghæ frekar en Bandaríkjunum sem er heimaland Barbie.

Mattel lítur nú til Kína sem markaðar sem geti viðhaldið vexti fyrirtækisins en salan á Barbie-vörum minnkaði um 46% í Bandaríkjunum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Jólaverslunin í Bandaríkjunum í fyrra reyndist sú lélegasta undanfarin 40 ár.

Á móti kemur að töluverður vöxtur var í smásölugeiranum í Kína allt síðasta ári eða um 19% á mánuði að jafnaði.

Þess má líka geta að Barbie-dúkkur eru að mestu framleiddar í Kína og Indónesíu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×