Innlent

Laugin í Reykjanesi endurnýjuð

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Búið er að steypa nýja sundlaug inn í gömlu laugina í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og er stefnt að því að hún verði opnuð sem ný fyrir næstu helgi.

Það þótti mikið átak fyrir 85 árum þegar Djúpmenn réðust í það að byggja sundlaugina en það var gert í sjálfboðavinnu. Á þeim tíma var lítið um járnabindingu og sement af skornum skammti. Laugin var því orðin illan farin í vor þegar núverandi eigendur réðust í endurbætur og fengu KNH verktaka til að steypa innan í hana.

Einn eigenda Reykjanesskóla, Jón Heiðar Guðjónsson, segir þetta í raun nýja laug, með fulla járnabindingu, þetta sé laug í lauginni. Löngu fyrir tíma núverandi laugar voru menn farnir að nýta jarðhitann á Reykjanesi til baða en áður var torflaug innar á nesinu. Endurbæturnar segir Jón Heiðar meira til að viðhalda gömlum hlutum og gömlum hefðum en um leið vonist menn til að framtakið styrki ferðaþjónustuna.

Jóhanna Kristjánsdóttir úr Svansvík á sterkar minningar tengdar lauginni, sem lengi var sú lengsta á landinu ásamt Hveragerðislaug. Hún hafi eiginlega verið félagsmiðstöð. Krakkarnir á Ísafirði voru líka sendir með Djúpbátnum Fagranesinu inn í Reykjanes að læra sund. Það hafi oft verið gaman og krökkunum hafi verið hent í laugina, jafnvel þótt það væri blindbylur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×