Fótbolti

Denilson samdi við Xi Mang Hai Phong í Víetnam

Ómar Þorgeirsson skrifar
Denilson.
Denilson. Mynd/NordicphotosGetty

Brasilíski leikmaðurinn brögðótti Denilson de Oliveira Araújo eða Denilson eins og hann er jafnan kallaður hefur samið við Xi Mang Hai Phong í Víetnam.

„Ég veit nákvæmlega ekkert um fótboltann í Víetnam en ég er mættur á svæðið og mun gera mitt til þess að hafa jákvæð áhrif á liðið," segir Denilson í viðtali við fjölmiðla í Víetnam.

Hinn 31 árs gamli Denilson var leystur undan samningi við Palmeiras í Brasilíu um áramótin og æfði meðal annars með enska úrvalsdeildarliðinu Bolton í byrjun ársins.

Denilson má vissulega muna sinn fífil fegurri en hann var eitt sinn dýrasti leikmaður heims þegar Real Betis borgaði 21,5 milljónir punda fyrir kappann árið 1998.

Denilson á að baki 96 landsleiki fyrir Brasilíu og varð heimsmeistari með liðinu árið 2002. Hann lék gjarnan í treyju númer tuttugu fyrir þjóð sína og útskýrði númeravalið á sínum tíma með þeim hætti að hann væri jú helmingi betri en leikmaðurinn í treyju númer tíu.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×