Innlent

Þrír dæmdir dópsmyglarar handteknir í gær

Fíkniefnalögreglan handtók í gær þrjá þekkta dópsmyglara í tengslum við rannsókn á gríðarlega umfangsmiklu fíkniefnamáli. Gæsluvarðhalds verður væntanlega krafist yfir tveimur þeirra, Sigurði Ólasyni og Ársæli Snorrasyni. Þriðja manninum hefur verið sleppt.

Þeir hafa verið yfirheyrðir undanfarinn sólarhring og verst lögreglan allra frétta af málinu.

Sigurður Ólason var handtekinn í gærmorgun í fyrirtækinu R. Sigmundssyni í Klettagörðum þar sem hann situr í stjórn. Á sama tíma var Ársæll Snorrason handtekinn í klefa sínum á Litla-Hrauni þar sem hann afplánar dópdóm. Þriðji maðurinn, sem er margdæmdur, var einnig tekinn höndum. Gerð var húsleit á heimili hans í Breiðholti eftir því sem heimildir fréttastofu herma en honum var sleppt eftir yfirheyslur í morgun.

Grunur leikur á að mennirnir tengist tilraun til að smygla gríðarlegu magni af fíkniefnum til landsins frá Hollandi. Heimildir fréttastofu herma að einhverjir hafi verið handteknir vegna málsins þar í landi. Þeirra á meðal er Íslandvinurinn Johan Hendrick sem fékk sex ára fangelsisdóm fyrir þátt sinn í Stóra BMW-málinu árið 2006 þar sem áðurnefndur Ársæll var einnig dæmdur.

Fréttastofa flutti fyrst allra fréttir af því að karlmaður á þrítugsaldri hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 22. maí vegna gruns um aðild að innflutningi á hörðum fínkiefnum. Heimildir fréttastofu herma að handtaka þremenninganna í gær tengist því máli.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×