Fótbolti

Ferguson: Barcelona átti sigurinn skilinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ferguson og Giggs bíða eftir að taka við silfrinu.
Ferguson og Giggs bíða eftir að taka við silfrinu. Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, var að vonum svekktur eftir tapið í kvöld en viðurkenndi að sama skapi að betra liðið hefði unnið að þessu sinni.

„Fyrsta markið var alveg hrikalegt fyrir okkur. Fyrsta sóknin þeirra og þeir skora. Það var ekki góð byrjun fyrir okkur," sagði Ferguson.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel, mikið sjálfstraust hjá okkur en við urðum svolítið stressaðir eftir að Barca skoraði. Eftir markið gátu þeir haldið boltanum allt kvöldið og við áttum ekki nóg til þess að koma okkur aftur inn í leikinn," bætti Ferguson við.

„Við áttum nokkur hálffæri í síðari hálfleik og kannski áttum við að gera betur. Ef allrar sanngirni er gætt þá töpuðum við fyrir betra liði í kvöld," sagði Ferguson sem lætur tapið ekki buga sig.

„Þetta er það besta við leikinn því í mótlæti þarf maður að horfa fram á veginn og vinna úr hlutunum. Við erum enn gott lið sem getur bætt sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×