Erlent

Íslensk kona myrt af eiginmanni sínum í New York

Íslensk kona búsett í Bandaríkjunum, Isol Cotto, var myrt af eiginmanni sínum á gamlársdag á heimili hennar í Marbletown í New York ríki. Maðurinn, William Cotto, sem var lögreglumaður á eftirlaunum, skaut sjálfan sig til bana skömmu eftir ódæðið.

Isol, sem var 49 ára gömul, hafði kært eiginmanninn fyrir heimilisofbeldi og hafði hún farið fram á skilnað. Hann var handtekinn daginn fyrir gamlársdag en leysti sig út gegn tryggingu. Hann fór síðan rakleiðis heim til konunnar, braust inn til hennar og skaut hana til bana með haglabyssu. Þegar lögregla kom að húsi konunnar var hún látin. Maðurinn fannst skömmu síðar á bensínstöð í nágrenninu og hafði hann skotið sig til bana.

Þegar Cotto var handtekinn gerði lögregla upptæk byssur og önnur vopn á heimili hans og segir lögregla óljóst hvernig hann hafi orðið sér úti um haglabyssuna sem hann notaði við ódæðið. Eftir handtökuna var Cotto dæmdur í nálgunarbann og skipað að halda sér frá Isol. Nágranni hennar segir við staðarblaðið Daily Freeman að sambúð þeirra hafi verið afar stomasöm og að háreysti hafi oft verið frá húsi þeirra.

Isol lætur eftir sig tvær dætur. Önnur þeirra er þrjátíu og tveggja ára búsett á Íslandi. Hin er 22 ára. Hún var búsett hjá móður sinni og mun hún hafa orðið vitni að harmleiknum.

Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×