Fótbolti

Stuðningsmenn Juventus neita að biðjast afsökunar

Balotelli
Balotelli AFP

Talsmaður hörðustu stuðningsmanna Juventus á Ítalíu segir ekki koma til greina að þeir biðjist afsökunar á afskiptum sínum af Mario Balotelli hjá Inter um helgina.

Juventus var dæmt til að leika heimaleik fyrir luktum dyrum eftir að stuðningsmenn liðsins gerðust sekir um kynþáttaníð í garð Mario Balotelli hjá Inter.

Hörðustu stuðningsmenn Juventus eru hinsvegar ósáttir við þessa niðurstöðu, því afskipti þeirra af Balotelli hafi ekkert haft með kynþátt hans að gera.

"Ekki segja okkur að biðja Balotelli afsökunar, því söngvar okkar til hans höfðu ekkert með uppruna hans að gera. Patrick Vieira og Sulley Muntari (leikmenn Inter) eru af sama kynþætti og Balotelli og það var ekki einu sinni baulað á þá," sagði í yfirlýsingu frá stuðningsmönnum Juve. Þeir vilja meina að Balotelli sé leikmaður sem ögri áhorfendum.

"Balotelli sýndi stuðningsmönnum vanvirðingu í leiknum, meðal annars með því að koma ekki inn á völlinn fyrr en tveimur mínútum of seint. Við viljum líka minna á það að Mohammed Sissoko spilar með liði okkar og hann er meistari sem við erum stoltir að sjá í Juventus-treyju. Við getum því ekki beðist afsökunar," sagði í yfirlýsingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×