Innlent

Nemendur afar ósáttir við vinnubrögðin

Stjórnendur Iðnskólans í Hafnarfirði segja nám í útstillingum lagt niður vegna niðurskurðar. Áralangar deilur þess kennara sem sér um námið við fráfarandi skólameistara benda til annars.
Fréttablaðið/GVA
Stjórnendur Iðnskólans í Hafnarfirði segja nám í útstillingum lagt niður vegna niðurskurðar. Áralangar deilur þess kennara sem sér um námið við fráfarandi skólameistara benda til annars. Fréttablaðið/GVA
Nemendum á útstillingabraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði hefur verið tilkynnt bréflega að nám í greininni verði fellt niður frá og með áramótum.

„Mér finnst þetta ömurlegt, þessi sending kemur til okkar nemendanna korteri fyrir jól,“ segir Elísabet Blöndal, nemandi í útstillingum.

Hún segir aðra nemendur einnig afar ósátta við þessar fyrirvaralausu breytingar. Í bréfi þar sem nemendum var gerð grein fyrir þessari breytingu kemur fram að þeir geti lokið námi frá skólanum af listnámsbraut. Með bréfinu fylgir greiðsluseðill fyrir skólagjöldunum á næstu önn, sem ber að greiða fyrir áramót.

Nemendum er bent á að ræða breytingar á námi sínu við áfangastjóra eða aðstoðarskólameistara, en skrifstofa skólans er lokuð fram til 4. janúar.

„Ég er fyrir mitt leyti búin að senda bréf til menntamálaráðuneytisins og óska eftir því að þeir snúi þessari ákvörðun við. Mér finnst ekki ólíklegt að aðrir nemendur geri það líka,“ segir Elísabet.

Hún hefur ekki gert upp við sig hvort hún borgar skólagjöldin upp á von og óvon um að námið verði ekki fellt niður. „Ég ætla að vona það besta, en ég bíð fram á síðustu stundu með að ákveða hvort ég borga,“ segir Elísabet.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær er þessi breyting ekki gerð í samráði við menntamálaráðuneytið. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra segir nemendur eiga rétt á að ljúka því námi sem þeir hafi byrjað á. Heimildir Fréttablaðsins herma að ákvörðun stjórnenda skólans fái ekki að standa. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×