Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson: Við spiluðum eins og lagt var upp með

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga. Mynd/Valli
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga, var mjög svo ánægður með sína menn eftir að KR-ingar höfðu gjörsigrað Selfyssinga 3-0 í 13.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld á Selfossi.

„Ég er gríðarlega ánægður með hvað strákarnir lögðu sig mikið fram og spiluðu þann leik sem við lögum upp með," sagði Rúnar Kristinsson , nýráðinn þjálfari KR-inga, eftir leikinn í kvöld.

„Selfyssingar byrjuðu leikinn mun betur fyrstu tíu mínúturnar er svo fannst mér við ná ágætis tökum á leiknum. Þeir voru alltaf hættulegir í sínum sóknaraðgerðum en við bara nýtum okkar færi og það lagði gruninn að sigrinum,"sagði Rúnar.

„Við spilum einum færri í seinni hálfleiknum og fáum varla á okkur marktækifæri, ég get ekki farið fram á meira frá strákunum og er því virkilega ánægður með liðið eftir leikinn í kvöld,"sagði Rúnar. Það er ljóst að þjálfaraskiptin fara vel í KR-inga og allt annað að sjá til liðsins.

„Ég hef mikla reynslu af því sjálfur sem leikmaður að þegar skipt er um þjálfara þá virkar það eins og vítamínssprauta á liðið, en það varir oft bara yfir í einn leik og því er það mitt hlutverk að brýna fyrir strákunum að halda áfram á þessari braut," sagði Rúnar.

KR-ingar mæta Fram á fimmtudaginn í undanúrslitum Visa-bikarsins og leggst það verkefni vel í Rúnar.

„Sú spilamennska sem ég sá frá liðinu í kvöld er frábært veganesti fyrir leikinn gegn Fram á fimmtudaginn, en Frammarar koma líka dýrvitlausir í leikinn eftir að hafa sigrað toppliðið í kvöld. Við erum að fara spila upp á það hverjir komast í skemmtilegasta leik sumarsins og því verður allt lagt undir og við ætlum okkur sigur, en við verðum að undirbúa okkur mjög vel," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga, eftir sigurinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×