Handbolti

Umfjöllun: Enn einu sinni vann Valur nauman sigur á Gróttu

Elvar Geir Magnússon skrifar

Það verða Valur og Haukar sem leika til úrslita í Eimskipsbikar karla í ár. Valur vann sér þáttökurétt í úrslitunum í kvöld er liðið vann nauman sigur á Gróttu, 20-19.

Mikil spenna var undir lokin. Grótta hefði getað jafnað en sending fram völlinn misfórst og leiktíminn rann út. Þetta er í þriðja sinn í vetur sem Valur vinnur Gróttu með eins marks mun.

Í upphafi leiks var varnarleikur og markvarsla í aðalhlutverki en Valsmenn höfðu tveggja marka forystu í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks virtust þeir ætla að klára leikinn og náðu fimm marka forskoti.

Gróttumenn vöknuðu þá heldur betur til lífsins og mikil spenna var allt til loka. Anton Rúnarsson reyndist Valsmönnum erfiður í leiknum og minnkaði hann muninn í eitt mark þegar 30 sekúndur voru eftir. Valsmenn glopruðu boltanum strax í næstu sókn.

Markmaður Gróttu kastaði boltanum fram en Ernir Hrafn Arnarsson var á tánum og komst fyrir sendinguna. Tíminn rann út og Valsmenn fögnuðu sigri, þetta er þriðja árið í röð sem þeir komast í bikarúrslitin en þeir hafa unnið keppnina síðustu tvö ár.

Mörk Vals (skot): Sigurður Eggertsson 6 (12), Arnór Þór Gunnarsson 5/1 (9/1), Elvar Friðriksson 3/1 (6/2), Ernir Arnarsson 2 (2), Orri Freyr Gíslason 2 (3), Sigfús Sigfússon 1 (3), Baldvin Þorsteinsson 1 (3), Ingvar Árnason 0 (1).

Varin skot: Hlynur Morthens 19

Fiskuð víti: 3 (Sigurður, Elvar, Orri)

Utan vallar: 10 mínútur

Mörk Gróttu (skot): Anton Rúnarsson 8/3 (12/4), Hjalti Þór Pálmason 3 (9), Jón Karl Björnsson 3/1 (4/1), Finnur Ingi Stefánsson 2 (3), Atli Rúnar Steinþórsson 2 (3), Matthías Ingimarsson 1 (1), Halldór Ingólfsson 0 (1).

Varin skot: Magnús Sigmundsson 17, Gísli Rúnar Guðmundsson 4/1.

Fiskuð víti: 6 (Atli 4, Anton, Arnar)

Utan vallar: 10 mínútur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×