Innlent

Rannsaka einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja

Lögmæti kaupa Magma Energy á HS orku verður rannsakað af stjórnvöldum og líklegt er að einkavæðing á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007, verði líka könnuð ofan í kjölinn. Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Hún og fleiri ráðherrar auk þingflokksformanna stjórnarflokkanna komu saman í stjórnarráðinu í hádeginu til að ræða Magma málið.

Þingmenn Vinstri grænna hafa hótað því að hætta stuðningi við stjórnina verði ekki undið ofan af kaupum Magma á hlutum í HS orku.

Kanadíska félagið Magma Energy á nú 98,5% hlut í HS orku. Hlutinn á félagið í gegnum sænskt félag, Magma Energy Sweden.

Kaupin hafa verið mjög umdeild, en nefnd um erlenda fjárfestingu, en hún fjallaði um kaupin, klofnaði í málinu. Tveir fulltrúar af fimm töldu að kaupin stæðust ekki íslensk lög.

Geysir Green Energy átti áður umtalsverðan hlut í HS orku á móti sveitarfélögum á Reykjanesi og Orkuveitu Reykjavíkur.

Geysir Green eignaðist hlutinn í kjölfar kaupa á 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, en það var áður en HS var skipt upp í HS orku og HS veitur.

Hlutirnn var seldur skömmu fyrir Alþingiskosningarnar 2007, en þá sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í ríkisstjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×