Innlent

Hringakstri sagt stríð á hendur í Vatnsleysu

Á veginum handan bílsins var vegartálminn sem bæjaryfirvöld í Vogum létu fjarlægja af landi Virgils í gær. Fjær sést í Neðri-Brunnastaði. Fólkið þar vill halda hringveginum opnum.Fréttablaðið/GVA
Á veginum handan bílsins var vegartálminn sem bæjaryfirvöld í Vogum létu fjarlægja af landi Virgils í gær. Fjær sést í Neðri-Brunnastaði. Fólkið þar vill halda hringveginum opnum.Fréttablaðið/GVA
„Ég tel þetta vera innrás inn á mitt land,“ segir Virgill Scheving Einarsson, jarðeigandi á Vatnsleysuströnd sem kom fyrir vegartálma á landi sínu sem bæjaryfirvöld í Vogum létu fjarlægja á þriðjudag.

Virgill er meðeigandi móður sinnar að jörðunum Skjaldarkoti og Efri-Brunnastöðum I og II. Vigill og fleiri íbúar í nágrenninu eru ósáttir við hringveg sem liggur um bæjarhlöð þeirra og niður að sjóvarnargarði þar fyrir neðan. Neðsti hluti vegarins var að sögn Virgils á sínum tíma lagður í tengslum við gerð varnargarðsins og er ekki á vegaskrá. Fyrir tæpum mánuði lokuðu Virgill og nágranni hans, Stefán Árnason í Austurkoti, veginum þar sem hann fer yfir neðsta hluta lands Virgils.

„Hér eru börn, þannig að óheft umferð er glapræði. Við Stefán svöruðum kalli íbúanna og lokuðum,“ segir Stefán. Bæjarráð Voga tók málið fyrir í síðustu viku. Í niðurstöðu þess er vitnað í ákvæði vegalaga varðandi óskráða vegslóða sem liggja yfir eignarlönd. „Er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi,“ vitnaði bæjaráðið í lögin og krafðist þess að Virgill fjarlægði vegartálmana ellegar yrði það gert á hans kostnað. Og á þriðjudag gær bærinn vinnuvél á vettvang til að ryðja tálmanum burt.

„Eignarréttur minn er vanvirtur og á honum troðið,“ segir Virgill og þeir Stefán ítreka að mikið ónæði sé af hringakstri um bæjar­hlöð þeirra. Meðal annars hafa komið heilu rúturnar með hópa af útlendingum að skoða fjöruna.

„Það er öllum til óþæginda að hafa þennan hring opinn. Það er einn bær sem virðist standa fyrir því að veginum er ekki lokað. Mér finnst alveg nóg að það sé ein heimreið að hverjum bæ – það hefur dugað fram að þessu,“ segir Stefán.

Virgill segist telja að fólk sem tengist bænum Neðri-Brunnastöðum og vill hafa hringveginn opinn hafi beitt ítökum sem það hafi í H-listanum sem myndar meirihluta í bæjarstjórn Voga ásamt E-lista. „Það er pólitískur óþefur af þessu máli,“ segir Virgill, sem aðspurður kveður næsta skref að leita til dómsmálaráðuneytisins og dómstóla. „Slóðanum verður lokað,“ fullyrðir hann.

Bergur Álfþórsson úr E-listanum staðfestir að það hafi verið gert vegna óskar frá Neðri-Brunnastöðum. Eigandi þeirra er fyrrverandi bæjarfulltrúi H-listans. Bergur hafnar því að pólitík ráði för.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×