Innlent

Vegtollar lagðir á umferðaræðar til og frá Reykjavík

Vegtollar 100 til 200 krónur verða lagðir á allar umferðaræðar til og frá höfuðborginni innan nokkurra ára. Fyrirhugað er að taka upp vegtolla í öllu vegakerfinu.

Skammt er frá því að Alþingi samþykkti lög um að stofna opinber hlutafélög um vegagerð. Annað er félag um breikkun vega til og frá höfuðborgarsvæðinu; Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Einnig stendur til að stofna félag um Vaðlaheiðargönd.

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi samgönguráðherra, ræðir nú við lífeyrissjóði um fjármögnun þessarar vegagerðar fyrir hönd ríkisins. Hann segir að viðræður gangi vel, búið sé að gera flest nema semja um vexti. Þetta séu framkvæmdir upp á eina 40 milljarða króna með virðisaukaskatti sem framkvæmt yrði fyrir til ársins 2015. Fram hefur komið að innheimta á notendagjöld - vegtolla á þessum leiðum.

„Við höfum fyrir norðan gefið okkur ákveðna hámarkstölu vegna þess að við teljum að það séu ákveðin sársaukamörk. Ef það fer mikið upp fyrir þau teljum við verkið ekki framkvæmanlegt en á Suðurlandi eru þetta ekki háar tölur," segir Kristján.

Heimildir fréttastofu herma að hámarksveggjald fyrir norðan verði 800 krónur, en rætt sé um að veggjöldin á vegunum til og frá höfuðborginni, verði 100 til 200 krónur. Endanleg útfærsla liggur ekki fyrir. Rætt er um að tæknin - ef til vill gps - tækni verði notuð til að fylgjast með umferðinni og rukka fyrir veganotkun. En menn hafa í hyggju að leggja vegtolla á vegakerfið allt.

„Í framtíðarkerfinu myndum við breyta því líka þannig að það væru ekki einstök olíugjöld og bensíngjöld sem yrðu tekjustofnin heldur notendagjöld. Þetta er það sem er að riðja sér til rúms um alla Evrópu," segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×