Innlent

Þjóðarleiðtogar á herflugvélum skulu lenda í Keflavík

Valur Grettisson skrifar
Borgaryfirvöld vilja gera strangari kröfur til Reykjavíkurflugvallar í ljósi þess að hann er í íbúabyggð.
Borgaryfirvöld vilja gera strangari kröfur til Reykjavíkurflugvallar í ljósi þess að hann er í íbúabyggð.

Ef erlendir þjóðarleiðtogar ákveða að koma hingað til lands í svokölluðum State aircraft, eða herflugvélum, þá skulu þeir lenda á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Orðrétt segir:

„Eins og fram hefur komið í fréttum hafa margir þjóðhöfðingjar komið til landsins í svokölluðum State aircraft sem flokkast sem herflugvélar sem skráðar eru í eigu hernaðaryfirvalda viðkomandi þjóðríkja. Með samþykkt borgarráðs í síðustu viku er Reykjavíkurborg ekki að leggjast gegn því að erlendir þjóðhöfðingjar komi í heimsókn til landsins. Kjósi þeir hins vegar að koma í herflugvél er það ósk borgaryfirvalda að flugmálayfirvöld beini þeim til lendingar á Keflavíkurflugvelli sem er alþjóðaflugvöllur. Á Keflavíkurflugvelli er jafnframt öll aðstaða til lendingar fyrir herflugvélar og gætt fyllsta öryggis sem felst í því að þeim er lagt á sérstakt stæði langt frá öllu farþegaflugi."

Svo segir í tilkynningunni að borgaryfirvöld telji mikilvægt að farið verði vandlega yfir þær reglur sem í gildi eru um umferð herflugvéla á Reykjavíkurflugvelli. Vinna þurfi enn frekar að nánari skilgreiningu á því hvaða flugvélar verði skilgreindar sem herflugvélar með það að markmiði að auka öryggi í borginni sérstaklega í ljósi þess að flugvöllurinn er í nálægð við íbúabyggð.

Þá segir ennfremur að rétt er í þessu samhengi að vekja athygli á því að Reykjavíkurflugvöllur er fyrst og fremst ætlaður til innanlandsflugs og staðsetning hans í miðri borg gerir kröfur til öryggis sem umferð herflugvéla getur ekki samræmst nema í undantekningartilvikum. Hins vegar verður flugvöllurinn varaflugvöllur og þjónar því hlutverki áfram eins og áður var nefnt.

Þá þykja borgaryfirvöldum Isavia skilgreina hugtakið herflugvélar frekar þröngt. Þannig segir í tilkynningunni:

Í tilefni fréttar Stöðvar tvö um umferð flugvéla um Reykjavíkurflugvöll skal eftirfarandi tekið fram:

„Samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá tekur það við beiðnum um yfirflugs- og lendingarheimildir frá flugvélum á vegum erlendra ríkisstjórna. Þessar yfirflugs- og lendingarheimildir til handa flugvélum erlendra ríkisstjórna, þ.m.t. herflugvélar, eru afgreiddar af utanríkisráðuneytinu. Það sem Isavia flokkar sem herflugvélar eru því flugvélar skráðar í eigu hernaðaryfirvalda viðkomandi þjóðríkja. Isavia er því ekki með skilgreiningu á því hvort að vélin sé með bein hernaðarumsvif heldur er miðað við skráningu flugvélarinnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×