Innlent

Ákærðir fyrir glæp sem aldrei var framinn

„Níumenningarnir eru ákærðir fyrir glæp sem aldrei var framinn," segir málsvari þeirra. Hann segir að ákæruvaldið hafi farið offfari í málinu. Dómsmálaráðherra tók við áskorun frá 1000 manns í dag sem vilja að hann beiti sér fyrir því að saksókn í málinu verði felld niður.

„Ég ætla að afhenda þér þennan undirskriftarlista og þetta eru undirskriftir fólks sem hvetur þig sem dómsmálaráðherra til að beita sér fyrir því að saksókn í máli þessara níumennninga verði felld niður," sagði Einar Steingrímsson málsvari níumenninganna í dag.

990 manns undirrita áskorunina en aðalmeðferð í máli níumenninganna fer fram fljótlega eftir áramót. Einar Steingrímsson segir ekki hægt að horfa upp á málið án þess að aðhafast. Ákæran sé yfirgengileg.

„Að halda því fram að þetta fólk, sem gekk inn á Alþingi og einhverjir hrópuðu nokkur orð að Alþingismönnum á þingpöllunum, hafi reynt að fremja valdarán eða haft nokkra möguleika á að gera það, er algjörlega glórulaust. Það er alveg augljóst að ákæruvaldið hefur farið offari hér. Það sem er hættulegt við þetta, er að það er verið að ráðast gegn einstaklingum sem eru ákærðir fyrir glæp sem aldrei var framinn."

Þá sé ákæran árás á frelsi fólks til að mótmæla.

„Fólk sem neytir réttar síns til að mótmæla má ekki eiga það á hættu að það sé farið svona með það af dómskerfinu."

„Ég læt við það sitja að taka við þessum undirskriftalistum og hlustaði á þessi orð og meira hef ég ekki að segja að sinni," sagði Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra eftir að hann tók við listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×