Innlent

Þessi eru tilnefnd til Hvatningarverðlauna ÖBÍ

Alþjóðlegur dagur fatlaðra er í dag. Hann hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá því að Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir alþjóðlegu ári fatlaðs fólks árið 1981. Markmið alþjóðlegs dags fatlaðra er að auka skilning á aðstæðum fólks með fötlun, baráttunni fyrir réttindum þess og fullri þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra.

Öryrkjabandalag Íslands, veitir í dag í fjórða sinn Hvatningarverðlaun ÖBÍ til þeirra sem stuðlað hafa að einu samfélagi fyrir alla og þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu.

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja/stofnana og flokki umfjöllunar/kynningar. Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður verðlauna er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.

Auglýst var eftir tilnefningum og barst mikill fjöldi tilnefninga í öllum flokkum. Undirbúningsnefnd valdi þrjár tilnefningar úr hverjum flokki sem sérstök dómnefnd tók svo endanlega afstöðu til. Tilnefningar undirbúningsnefndar eru eftirfarandi:

Í flokki einstaklinga:

  • Auður Guðjónsdóttir, fyrir ötula baráttu við að finna lækningu við mænuskaða.
  • Harpa Dís Harðardóttir, fyrir metnaðarfullt starf við gerð orlofshúss með góðu aðgengi fyrir fatlað fólk og áralanga baráttu fyrir réttindum þess.
  • Jón Gunnar Benjamínsson, fyrir vinnu að bættu aðgengi fatlaðs fólks um hálendi Íslands.


Í flokki fyrirtækja/stofnana:

  • Blindrabókasafn Íslands, fyrir frábæra þjónustu við þá sem geta ekki nýtt sér hefðbundið prentletur vegna einhvers konar hömlunar.
  • Leikskólinn Múlaborg, fyrir frumkvöðlastarf í sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna þar sem allir eru metnir að eigin verðleikum.
  • Reykjadalur, fyrir ötult starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna með rekstri sumarbúða og helgardvalar að vetri.


Í flokki umfjöllunar/kynningar:

  • Hugarafl, fyrir kynningu og réttindabaráttu þeirra sem glíma við geðsjúkdóma og vinna að eigin bata og annarra.
  • Margrét Dagmar Ericsdóttir, fyrir myndina Sólskinsdrengurinn, sem aukið hefur skilning almennings á margbreytileika einhverfu.
  • Öryrki.is, fyrir skemmtilegt framtak þar sem unnið er gegn fordómum ófatlaðra á nýstárlegan máta.


Niðurstöður dómnefndar verða kunngerðar við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi klukkan tvö í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×