Innlent

Bónus með lægsta verðið á vörum til baksturs

Bónus var oftast með lægsta verðið og Samkaup Úrval oftast með hæsta verðið í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum víða um land, miðvikudaginn 1. desember. Kannað var verð á 56 algengum vörum til baksturs.

Fjallað er um málið á vefsíðu ASÍ. Þar segir að Bónus var oftast með lægsta verðið í 37 tilvikum en í nær helmingi tilfella var um eða undir 2 kr. verðmunur á Bónus og Krónunni. Samkaup Úrval var með hæsta verðið í 27 tilvikum en Nóatún var næst oftast með hæsta verðið í 20 tilvikum. Allar vörurnar í könnuninni voru til í Hagkaupum en næstflestar vörurnar voru til í Fjarðarkaupum. Verslunin Kostur í Kópavogi neitaði þátttöku í könnuninni.

Mikill verðmunur reyndist vera á bökunarvörum. Algengast er að fjórðungs til helmings verðmunur sé á milli verslana. Sem dæmi má nefna að ódýrasta kílóverðið á hveiti sem kostaði 79 kr./kg. í Bónus, en var dýrast á 134 kr./kg. í Hagkaupum, verðmunurinn er tæp 70%.

Verðmunur á sykri var einnig mikill, ódýrasti fáanlegi sykurinn kostaði 185 kr./kg. í Bónus en var dýrastur á 243 kr./kg. í Nóatúni og Samkaupum Úrval, verðmunurinn er 31%.Ódýrustu rúsínurnar kostuðu 476 kr./kg. í Nettó, en dýrastar voru þær á 698 kr./kg. í Hagkaupum, verðmunurinn er 47%. Odense núggat 100 gr. var ódýrast á 298 kr.st. í Bónus en dýrast á 339 kr.st. Nóatúni og Samkaupum Úrval, verðmunurinn er 14%.

Ódýrasta fáanlega kakóið kostaði 1.036 kr./kg. í Krónunni, en dýrast var það á 1.300 kr./kg. í Samkaupum Úrval, verðmunurinn er 26%.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kringlunni, Krónunni Reyðafirði, Nettó Akureyri, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum Úrval Akureyri, Hagkaup Kringlunni og Nóatúni í Nóatúni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×