Erlent

Næst gerum við samstundis loftárás

Óli Tynes skrifar
Flugher Suður-Kóreu ræður yfir nýjustu bandarísku orrustuþotum.
Flugher Suður-Kóreu ræður yfir nýjustu bandarísku orrustuþotum.

Nýr varnarmálaráðherra Suður-Kóreu segir að þeir muni þegar í stað og án nokkurs hiks gera loftárásir á Norður-Kóreu ef landið geri sig sekt um enn eina árásina. Forvera hans var vikið úr starfi fyrir alltof væg viðbrögð þegar Norður-Kórea gerði stórskotaliðsárás á eyna Yonpyeong í lok síðasta mánaðar.

Sífellt nart

Sú árás bættist við að síðastliðið sumar sökktu norðanmenn suður-kóresku herskipi. Með því fórust 46 sjóliðar. Norður-Kóreumenn hafa á undanförnum árum margsinnis hvekkt granna sína með slíku narti. Atvikin eru yfirleitt það smávægileg að ekki hefur verið gripið til hefndaraðgerða. Það hefur líka sett sinn svip á samskipti ríkjanna að Norður-Kórea er talin eiga kjarnorkuvopn. Og ríkisstjórn landsins þykir gersamlega óútreiknanleg.

Nú er nóg komið

Ef marka má Kim Kwan-jin hinn nýja varnarmálaráðherra er þó mælirinn nú fullur. Sunnanmenn munu ekki líða meira nart. Lítill vafi er á að Suður-Kóreski flugherinn er fullfær um að gera árásir og valda miklu tjóni norðan landamæranna.

Norður-Kóreski flugherinn er að vísu um helmingi stærri en sá sunnanmegin. Hann samanstendur hinsvegar mest af eldgömlum og úreltum kínverskum eða rússkesnkum bardagavélum. Suður-Kóreski flugherinn er hinsvegar búinn nýjustu bandarísku orrustuþotum.

Sömu sögu er raunar að segja um landheri og flota ríkjanna. Fjöldinn er norðanmegin, en tæknin og gæðin sunnanmegin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×