Innlent

Verkstjórinn segir dásamlegt á Búðarhálsi

Eftir hlé í nærri áratug eru virkjanaframkvæmdir hafnar á ný á hálendinu sunnan jökla. Verkstjóri við Búðarháls, sem unnið hefur að flestum stórvirkjunum sunnan jökla allt frá Búrfellsvirkjun, segir þetta dásamlegt.

Vinna við Búðarhálsvirkjun fer rólega af stað þessa dagana en þetta er sjötta virkjunin sem byggð er á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Sú síðasta var Vatnsfellsvirkjun sem var gangsett fyrir níu árum.

Karlarnir sem nú eru mættir á Búðarhálsinn hafa sumir langa reynslu af slíkri vinnu, eins og Benedikt Benediktsson, verkstjóri hjá Ístaki. Hann byrjaði í Búrfelli árið 1967 og hefur síðan unnið við flestar virkjanir á svæðinu nema Sigöldu. Nú er hann að koma úr vinnu frá Noregi.

Sprengistjórinn Þórir Sverrisson byrjaði 1983 á hálendinu, var í Kvíslaveitum, Hrauneyjum og Sultartanga. Hann er einnig að koma úr vinnu frá útlöndum; var tvö ár í Grænlandi og Noregi, og segir það ágæta tilbreytingu að koma heim aftur. Hitt hafi verið orðið gott í bili. Hann hafi hins neyðst til að vinna erlendis þar sem ekkert hafi verið um að vera á Íslandi.

En fylgir því einhver sérstök stemmning að vinna við gerð virkjana á hálendinu?

Benedikt segir alltaf stemmningu ef vel gangi. Það sé mikið af fólki og tækjum og það séu spennandi tímar þegar allir eru að gera það gott. Hann segir gríðarlega fallegt á hálendinu og það sé léttir að vinna þar miðað við að vera á Reykjavíkursvæðinu innan um umferðartraffík. Þetta sé alveg dásamlegt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×